29. janúar 2012

Einfaldir vettlingar úr léttlopa

Ég er pínu með vettlingaæði núna... sennilega af því að ég get bara haft eitthvað lítið á prjónunum þar sem ég er í pásu frá ýmsum stærri verkefnum... þannig að ég ætla ekki að ráðast í stærri verkefni fyrr en hin eru búin :)

Ég vildi gera barnavettlinga þar sem ég fékk smáa gesti til mín um jólin sem höfðu gleymt að taka vettlinga með sér og þá hefði nú verið gott að frænka hefði getað átt vettlinga handa þeim... það verður bara næst ef ég verð ekki búin að gefa þá hehehe

Ég rakst á þessa vettlinga og mér fannst þeir svo sniðugir því að það skiptir ekki máli á hvora höndina þeir fara. Ég mun örugglega gera fleiri svona en ég held að ég kunni betur við að hafa smá mynstur í þeim :)

Einfaldir vettlingar úr léttlopa

Garn: Léttlopi
Prjónar: 3,5 og 4,0 mm
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/einfaldir-lopavettlingar-me-umaltungu

21. janúar 2012

Hekluð blómasería

Ég bara næ að föndra smá núna... kannski er ástæðan sú að ég minnkaði námið um eitt fag og/eða bara að það er stutt síðan skólinn byrjaði :)

Mig langaði til að skipta út þæfðu túlípanaseríunni minni sem er fjólublá yfir í eitthvað sumarlegra... er ekki alveg að koma vor? Mér finnst ég amk aðeins farin að finna fyrir að það birtir fyrr og er aðeins lengur bjart á daginn ;) Ég var búin að rekast á blómaseríur á netinu sem voru með einföldum blómum og þær voru þannig að blómin voru ekki þétt heldur gisin... vona að þið skiljið hvað ég meina :)

Ég fór því aðeins að fikta í gær og heklaði tvöföld blóm úr léttlopa en ég elska lopa :) Hér eru myndir af afrakstrinum þeas að hekluðu blómaljósaeríunni minni:

Hekluð blómaljósasería

Hekluð blóm utan um perurnar

Blóm úr léttlopa

Hekluð blóm

ljósasería

Garn: Léttlopi
Heklunál: 4 mm
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/heklu-blomaljosaseria

17. janúar 2012

Prjónamerki

Stalst aðeins til að föndra í gær... enda miklu skemmtilegra að föndra en að læra ;) Ástæðan var sú að ég seldi öll prjónamerkin sem ég átti en ég vil alltaf eiga smá lager :)

Tók svo mynd af litunum sem til eru:


Prjónamerki er eitthvað sem allir prjónarar ættu að eiga en þau eru t.d. notuð til að merkja upphaf umferðar og hvar eigi að taka úr. Hér má sjá mynband sem sýnir hvernig prjónamerki eru notuð: http://www.youtube.com/watch?v=NU8Qsx3pKzQ

Ef einhver hefur áhuga á að kaupa prjónamerki (lykkjumerki) þá er hægt að smella á Til sölu.

16. janúar 2012

Vettlingar úr afgöngum

Mér finnst svakalega sniðugt þegar verið er að nýta afganga í að prjóna vettlinga... ekki hefur nú veitt af því að vera með hlýja vettlinga að undanförnu :) Ég ákvað því að prjóna vettlinga úr afganginum af síðustu peysu og láta fylgja með peysunni. Þar sem ég hef nú ekki prjónað mikið af vettlingum og hef ekki módel við höndina til að máta þá fannst mér öruggara að finna mér uppskrift. Fann þessa ágætu uppskrift í fleiri prjónaperlum en ákvað samt að breyta aðeins mynstrinu.

Ég veit ég á það til að prjóna laust... nema heldur fastar í mynstrinu og vonandi verð ég einhvern tímann betri í því. En þessi vettlingauppskrift finnst mér samt einum of stór. Ég prjónaði stærð 6-9 ára og þeir passa á mig... og mér finnst þeir heldur of víðir meira að segja neðst. En ég bara græddi vettlinga á því ;)


Ég hafði reyndar prjónað aðra vettlinga úr þessari sömu bók og mér fannst þeir hefðu alveg mátt vera aðeins stærri fyrir minn smekk... :) Mér finnst nú varla taka því að gera prjónafestuprufur fyrir svona lítil stykki... enda ætti ekki að muna miklu þegar svona lítill hlutur er að ræða :) En ég þarf greinilega að fara að prjóna aðeins fastar ;)

Garn: Léttlopi
Prjónar: 3,5 og 4,5 mm
Uppskrift: Fleiri prjónaperlur

10. janúar 2012

Enn einn Lokinn :)

Ísabella frænka er búin að stækka svo mikið og fór varla úr lopapeysunni sem ég gaf henni í afmælisgjöf í fyrra... þannig að það var bara drifið í því að nota restina af jólafríinu í að prjóna nýja stærri í afmælisgjöf... mér finnst alltaf jafn gaman að prjóna hana þar sem hún er prjónuð frá hálsmáli og niður. Kláraði hana í gær enda ekki seinna vænna þar sem skólinn var að byrja... ótrúlegt hvað jólafríið leið hratt! Þannig að það mun sennilega ekki koma mikið frá mér hér á næstunni... ekki fyrr en í sumarfríinu býst ég við :) En hér eru myndir af lopapeysunni:



Greinilegt að frænkur mínar eru hrifnar af fjólubláum lit eins og ég :)

Þessi peysa er stærð 8. ára en fyrri peysan hennar var stærð 6. ára. Ég heklaði núna breiðari kant og hafði stærri tölur.

Garn: Léttlopi
Prjónar: 3,5 og 4,5 mm
Heklunál: 4,0 mm
Uppskrift: http://www.ravelry.com/patterns/library/loki-20 (http://knittingiceland.is/2010/12/14/loki-a-free-pattern/?lang=is)